Ragnarök: örlög goðanna

ópera (2024)

Ragnarok: fate of the gods

opera (2024)

Click here for information in English (also here)

Sjöunda ópera Helga R. Ingvarssonar verður frumflutt 30. október 2025 í Norðurljósum Hörpu á Óperudögum í Reykjavík í samstarfi við Kammeróperuna. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Guja Sandholt.

Við erum á Fésbókinni: https://www.facebook.com/ragnarokorloggodanna


Frá fyrstu æfingu í Júní 2024. Kristín Sveinsdóttir æfir eitt lag Völvunnar „Hljóðs bið ég allar helgar kindir“. Meðleikari Þóra Kristín Gunnarsdóttir.

Frá fyrstu æfingu í júní 2024. Hópurinn æfir bút úr atriðinu „Heilir Æsir“.

Samantekt

Við kynnumst ásunum og sjáum hvernig hroki þeirra, lygar og hégómi leiðir til dauða þeirra í loka bardaganum, ragnarökum. Verkið er á íslensku, forn norrænu og ensku.

Textinn kemur að mestu úr ljóðabálknum „Ragnarökkur“ eftir Benedikt Gröndal (gefið út 1868), en einnig koma fyrir brot úr Völuspá, Sigurdrífumálum, Hamðismálum og fleiri heimildum. Verkið inniheldur ein 16 tónlistar númer og er rúmlega 1 klukkustund í flutningi.

Óðinn (bassi - Unnsteinn Árnason) ferðast niður til Heljar og vekur Völvuna (alt - Kristín Sveinsdóttir) upp frá dauðum með krafmiklum töfrasaung og spyr: „Heyrðu mig Völva,/ þig vil eg enn fregna / unz alkunna, / vil eg enn vita: / Hver mun Ásum að bana verða / og aldri ræna?“ Völvan rís upp og deilir vitneskju sinni um framtíðina, um enda heimsins. Sögusviðið ferðast þá í tíma og stað frá Hel og til Ásgarðs, rétt fyrir Ragnarök, þar sem Heimdallur blæs í Gjallarhornið og Óðinn tilkynnir Ásum að stríð sé á næsta leiti: „Heyrið nú Æsir, hornaþyt / hygg ég að Gjallarhorn kveði.“ Frigg (sópran - Jóna G. Kolbrúnardóttir) sér sýnir og dreymir þau hroðalegu örlög sem bíða heimsins: „Mig vekja tár um mæra morgunstund / er manar fáks í björtum glóa straumi / og þegar loksins þreyða fæ ég blund / þreytist ég meir en fyrr af illum draumi.“ Á sama tíma leiðir Loki (tenór - Eggert Reginn Kjartansson) her Múspells (kór) fram úr sölum Heljar: „Nú ríða Múspells megir fram.“ Frigg og Óðinn hvetja her Einherja (kór) til dáða: „Hetja jarðar, heyrðu mig / herjans krapti særi eg þig.“ Einherjar svara: „Fúsir vinnum allir eið / opin stendur Heljar leið.“ Fylkingarnar tvær standa mót hvorri annarri, tilbúnar að berjast upp á líf og dauða.

aðstandendur

Tónlist og handrit er eftir Helga R. Ingvarsson, en hann verður einnig tónlistarstjóri sýningarinnar. Verkið er skrifað fyrir fjóra einsöngvara, tvö píanó og tvo kóra. Einsöngvarar verða Jóna G. Kolbrúnardóttir sem Frigg, Kristín Sveinsdóttir sem Völvan, Eggert Reginn Kjartansson sem Loki og Unnsteinn Árnason sem Óðinn. Píanóleikarar verða Matthildur Anna Gísladóttir og Þóra Kristín Gunnarsdóttir. Kórar verða Langsholtskirkju kórinn undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar, og Kordía, kór Háteigskirkju undir stjórn Erlu Rut Káradóttur.

Helgi R. Ingvarsson

Höfundur og tónlistarstjóri

Unnsteinn Árnason

Söngvari - Óðinn

Þóra Kristín Gunnarsdóttir

Píanóleikari

Jóna G. Kolbrúnardóttir

Söngvari - Frigg

Eggert Reginn Kjartansson

Söngvari - Loki

Magnús Ragnarsson

Kórstjórnandi - Kór Langholtskirkju

Kristín Sveinsdóttir

Söngvari - Völva

Matthildur Anna Gísladóttir

Píanóleikari

Erla Rut Káradóttir

Kórstjórnandi - Kordía, kór Háteigskirkju

 
  • Ragnarök er verk þar sem ég kanna rætur mínar og sjálfsmynd. Leit mín að skýrri sjálfsmynd, hafði leitt mig að spurningunni: „Hver er ég?“. Hver er Helgi í raun og veru? Stór og erfið spurningin sú. Mér fannst sjálfsmynd mín yfirþyrmandi flókin og of margt barðist þar um athygli. Ég var að greiða úr, reita illgresið, höggva á greinarnar sem stóðu í vegi mínum og komast út að opinni víðáttunni þar sem ég á heima. Í stuttu máli, þá komst ég að því að ég er fyrst og fremst Íslendingur. Það hljómar kannski sjálfsagt, en fyrir einhvern sem hefur búið í þremur mismunandi löndum, og búið erlendis í 13 ár, einhvern sem er giftur Englendingi, þá er það ekki endilega alveg svo auðvelt að tilkynna fyrir sjálfum sér slíkt afdráttarlaust. Ég var lengi að velkjast í því hvort ég væri „íslendingur erlendis“ eða „Brighton búi“ eða hvort ég væri hreinlega ennþá „MH-ingur“. Ég er auðvitað einhverskonar samruni af þessu öllu og fleiru, en mér fannst mikilvægt að geta sagt þetta með berum, skýrum orðum.

    Ég hef alltaf verið hrifinn af norrænu goðatrúnni og sögunum þar í kring (mamma mikill aðdáandi líka og kenndi mér ýmislegt, ég lærði þær í skóla og las skandinavísku teiknimyndasögurnar auk þess að kynna mér önnur verk sem urðu á vegi mínum hafa verið innblásin af sama efni), en hér vildi ég segja þær eftir eigin nefi, reyna að gleyma alveg hvað hafði verið gert áður en draga fram það sem mér fannst spennandi og áhugavert. Þetta efni er nefninlega svo hryllilega „íslenskt“ og ég fann það að þetta var líka „mitt“. Þetta er sú arfleið sem ég hef erft. Partur af sjálfsmynd minni. Ég hafði ýmsar sögur í skúffunni tilbúnar til að velja úr fyrir næsta verk, eins og t.d. gríska goðsagan um Eros og Psýkku, Losti: heimspekileg burlesque ópera, og fl. en þessar sögur voru ekki eins mikið „ég“. Ég fann það sterkt að næsta verk yrði að koma djúpt að innan. Handritagerðin og tónsmíðin urðu þannig óhjákvæmilega partur af þessari leit að „mér“. Ekki bara í efnivið, heldur einnig í formi, þar sem óperan er í raun sönglagahringur með örfáum undantekningum, og ég hef áttað mig á því að sönglagið er ekki bara eitthvað sem ég hef gaman af, heldur er ég einnig góður í því. Ég kem úr heimi sönglagsins, hafandi numið klassískan söng, hafandi sungið í rokk hljómsveit og gefið út popp plötu á sínum tíma, og þar er ef til vill tengingin við upphafið, poppið og rokkið, en þar ræður sönglagið lofum og ríkjum.

    Helgi R. Ingvarsson, tónskáld og tónlistarstjóri

    27.sept 2024, Brighton, Englandi.

þakkir

Tónskáldasjóður RÚV fær þakkir fyrir að styrkja skrif verksins, og Tónlistarsjóður fær þakkir fyrir að styrkja frumflutninginn.

 

Myndir frá fyrstu æfingu í júní 2024