Sjálfstæðisyfirlýsing þjóðar í óperettu: Í álögum, fyrsta íslenska óperettan. (2022)
Fræðigrein
Samantekt
Fyrsta íslenska óperettan var Í álögum með tónlist eftir Sigurð Þórðarson og handrit eftir Dagfinn Sveinbjörnsson, frumflutt í Iðnó, Reykjavík, 25.apríl 1944. Í álögum er þar með ekki aðeins fyrsta íslenska óperettan heldur einnig fyrsta íslenska óperíska verkið samið og flutt á Íslandi, af Íslendingum, fyrir Íslendinga. Einnig er tímasetningin merkileg. Óperettan var samin og frumflutt á einum stærsta vendipunkti í sögu Íslands; við urðum sjálfstæð þjóð eftir að hafa verið undir yfirráðum Danmerkur síðan á 14.öld. Verkið virðist litað af þessum tímamótum og er á marga vegu einkar íslenskt. Efni þessarar fyrstu íslensku óperettu er sótt nánast þrjár aldir aftur í þjóðlífið, þegar einokun og önnur óáran hafði þjáð þjóðina og lamað orku hennar, en fyrstu glætu viðreisnar og vakningar bregður fyrir. Tónskáldið Sigurður Þórðarson nýtir sér áhrif úr íslenskum þjóðlaga arfi sem gerir tónlistina þyngri á köflum en venjulega gengur og gerist í óperettum.
Skortur hefur verið á texta sem tekur saman upplýsingar um þetta merkilega verk. Til þess að bæta úr því lagðist undirritaður í rannsókn á árunum 2019-2021 og safnaði saman gögnum. Þessi grein er afsprengi þeirrar rannsóknar og er markmiðið með henni að gefa áhugafólki um íslenska menningarsögu innsýn í efnistök óperettunnar með nýjum greiningum höfundar á handriti og raddskrá Í álögum og undirstrika þannig hið sérstaka og hið þjóðlega sem þar finnst. Auk þess er það von höfundar að skrif þessi auki áhuga lesenda á óperusögu Íslands, sem er stutt en þó rík af íslenskum verkum.
Verkefnið hófst formlega 21. janúar 2021 og lauk í febrúar 2022.
Rannsakandi og höfundur greinar er Dr. Helgi Rafn Ingvarsson.
Verkefnið var styrkt af Starfsmenntunarsjóði FT og FÍH, Styrktarsjóði Vinafélags Íslensku Óperunnar og Nótnasjóð STEFs.
Information in English: http://helgiingvarsson.com/spellbound
lesið greinina hér
Hægt er að lesa greinina hér: https://www.lhi.is/tolublad-7-sjalfstaedisyfirlysing-thjodar-i-operettu
Fleiri dæmi úr handriti og söngskrá, ásamt ítarlegri sagnfræðilegri umgjörð, má finna í lengri útgáfu ritgerðarinnar hér (óyfirlesin) : https://issuu.com/helgiingvarsson/docs/sja_lfst_isyfirly_sing_jo_ar_i_o_perettu-i_a_lo_gum_f
Rannsóknar dagbók
UPPFÆRSLA 29.SEPT 2022
Ég hef hafist handa við að umrita handskrifuðu hljómsveitarpartana 11 yfir á stafrænt form svo hægt sé að greina og flytja hljómsveitarútsetningu Sigurðar Þórðarsonar tónskálds. Raddskrá óperettunnar hefur enn ekki fundist þrátt fyrir ítarlega leit hjá Tónverkamiðstöð, RÚV, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Tónlistarsafni Íslands og Íslensku Óperunni og því er þessi vinna mikilvæg til að heildar sýn verksins glatist ekki. Um er að ræða mjög mikið af efni, einhver 38 sungin lög og þar er ekki með talin nokkrar framsagnir (talaður texti með tónlistar undirspili) og fjölmörg ósungin hljóðfæranúmer eins og forspil, millispil og dansar. Umritunin er styrkt af Nótnasjóði STEFs.
UPPFÆRSLA 13.MAÍ 2022
7. tölublað Þráða er komið út. Margt merkilegt þar, meðal annars grein mín um Í álögum, fyrstu íslensku óperettuna, en ég hef verið að rannsaka verkið undanfarin tvö ár eða svo. Rannsóknin og skrifin voru styrkt af Starfsmenntunarsjóði FT og FÍH, og Styrktarsjóði Vinafélags Íslensku Óperunnar: https://www.lhi.is/tolublad-7-sjalfstaedisyfirlysing-thjodar-i-operettu
STYRKUR FRÁ NÓTNASJÓÐI STEFs
Rannsókninni er þó ekki lokið þó greinin hafi verið birt. Ég hef hlotið styrk frá Nótnasjóð STEFs til að fjármagna afritun handskrifaðrar raddskrár og hljómsveitarparta óperettunnar yfir í stafrænt form. Áætlað er að sú vinna fari fram í september 2022 og styður hún við frekar greiningu á tónlist verksins. Auk þess eykur þetta á líkur þess að verkið getið verið flutt aftur í framtíðinni. Kærar þakkir fyrir stuðninginn STEF.
UPPFÆRSLA 10.APRÍL 2022
Stytt útgáfa ritgerðarinnar er nú í yfirlestri hjá ritstjórn vefrits Listaháskóla Íslands: Þræðir - Tímarit um Tónlist. Vonir eru um að hún verði birt í næsta tölublaði þeirra á þessu ári. https://www.lhi.is/thraedir
UPPFÆRSLA
31. janúar 2022
Rannsókn og skrifum er nú formlega lokið. Ritgerðinni verður nú komið til útgefenda. Nánar síðar.
UPPFÆRSLA 2. janúar 2022
Nú eru nægileg kurl komin til grafar. Óhreinskrifaðar heimildir, tóngreining og athugasemdir rannsakanda telja nú í kringum 20.000 orð. Auk þess telja heimildir á hljóðritum samtals meira en 170 mínútur (gróflega áætlað). Útfrá þeim upptökum sem Antonía Hevesí gerði fyrir mig er hægt að ímynda sér að óperettan Í álögum hafi verið allavega 3 klukkustundir í flutningi, og þar eru með taldar talaðar senur.
Nú fer í gang hreinskrifun á texta og svo yfirlestur. Rannsakandi vonar að greinin verði tilbúin í síðasta lagi í febrúar 2022.
Uppfærð aðferðafræði
Við rannsókn og skrif þessa efnis byrjaði rannsakandi á því að horfa vítt yfir völl með tilliti til gagnrýnikenningar, og þá sérstaklega þess hluta gagnrýnikenningar sem setur viðfangsefnið í samfélagslegt samhengi síns samtíma. (Paddison 1996, 14-15) Var þar litið til þeirra efnahagslegra, menntalegra og annarra samfélagslegra þátta er höfðu áhrif á uppsetningu þessa og gögn eru til um. Næst var ráðist í tóngreiningu á tónlistinni, nánar tiltekið formgreining, byggð á formgerðarstefnu; Tónlistin var brotin niður í einingar og greind í kerfi og formgerðir. Í formgerðarstefnu er reynt að gefa innsýn í það hvers konar formgerð verður að vera fyrir hendi til að tilteknar reglur virki, eða þá útskýra hvernig (og mögulega afhverju) þær eru brotnar. Með öðrum orðum er markmiðið að komast að því hvað tónskáldið var að gera þegar hann skrifaði verkið. Raddskráin, tónlistarskráin, fær þar mestu athyglina. Aðeins var litið til handritsins þegar þörf var á að setja það sem var uppgvötvað í raddskránni í nánara dramatískara samhengi. Að lokum var litið yfir farinn völl með heildarhyggju að vopni - þar sem heildin er skoðuð og skilin sem slík en ekki einungis út frá pörtum sínum - og helstu einkenni tekin saman. Rannsakandi og greinarhöfundur forðaðist túlkunarfræði - að túlka viðfangsefnið frekar en að mæla það - eftir fremsta megni.
UPPFÆRSLA 13. nóvember 2021
Píanóleikarinn Antonía Hevesí settist niður við píanóið í síðustu viku og spilaði alla æfingaraddskrána af verkinu inn á upptöku fyrir mig. Það er gífurlega hjálplegt að hafa þessa heildar upptöku við hendina þegar ég er að tóngreina verkið, því það vantar nokkuð í RÚV upptökurnar frá 1957. Nú er ég með allt sem ég þarf til að geta loksins skrifað upp greinina. Eftir langa vinnu glittir loksins í enda markið.
Auk þess fékk ég nýlega gefins eintak af sönglaga bók óperettunnar sem inniheldur 10 lög úr verkinu í útsetningu fyrir píanó og söngvara. Gunnar Guðbjörnsson tenór var svo góður að gefa mér sitt gamla eintak. Bókin er einstaklega falleg á að líta. Áður átti ég bókina aðeins á stafrænu formi. Takk Gunnar.
UPPFÆRSLA 23. ágúst 2021
Eftir langa leit rannsakanda og ígrennslur í ýmsum íslenskum gagnagrunnum virðast haldbærustu gögnin sem varðveist hafa um þetta merkilega verk vera:
upprunalega handritið, vélritað,
handskrifuð æfingaskrá fyrir píanó og söngvara,
tónleikaskráin frá frumsýningunni 1944,
upptökur frá 1957 af 25 sönglögum úr óperettunni (en mögulega eiga að finnast 34-39 lög í heildina),
ýmsar blaðagreinar ritaðar af samtímamönnum.
Hljómsveitar raddskráin hefur því miður ekki enn fundist. Rannsakandi hefur þó komið höndunum yfir nóg af efni til þess að bjarga Í álögum frá glötun.
Unnið verður nú úr gögnum rannsóknarinnar, þau greind, skrifuð upp og sett í samhengi. Notast verður við aðferðafræðina formal compositional analysis fyrir tónlist verksins (þar sem m.a. verða dregnar fram upplýsingar um stíla, form, hljómrænar þemur, notkun mótífa og þróun tónefnis). Með öðrum orðum: leitast verður við að greina tónefni verksins með rökhyggju frekar en persónulegu mati. Notast verður við aðferðafræðina critical methodology þegar kemur að því að setja verkið í sögulegt samhengi, innanlands og utan. Rannsakandi hyggst setja saman ítarlegt samhengi byggt á sögulegum, menningarlegum, samfélagslegum og efnahagslegum upplýsingum.
UPPFÆRSLA 20. apríl 2021
Þar sem að engin sögu-samantekt hefur fundist hingað til (fyrir utan eina á ensku sem inniheldur villur) hef ég ákveðið að setja saman mína eigin sögu-samantekt af óperuttunni Í álögum. Handrit verksins er mjög langt, eða 74 blaðsíður í heildina, og því ekki vanþörf á að geta gengið að ágripi.
Þessi samantekt verður birt með greininni, en í bili er hér uppfærður listi fyrir persónur verksins.
Persónur
(byggt á upprunalegu persónu skránni úr handriti Dagfinns Sveinbjörnssonar en uppfært af rannsakanda til hægðarauka)
Skúli, ungur menntamaður - tenór
Rannveig, dóttir lögmannsins í Dal - sópran
Magnús, lögmaður í Dal - baritón (?)
Lögmannsfrúin - mezzo (?)
Ari, umboðsmaður dönsku verslunarinnar - tenór (?)
Vala, vinnukona hjá lögmanni - alt/mezzo
Jón hómópati - bassi / baritón
Jón stúdent, vinur Skúla - tenór (?)
Sigríður og Sólveig, vinstúlkur Rannveigar - sópranar (?)
Álfakóngur - bassi / talað hlutverk
Dóttir álfakonungs - sópran
Álfakona í bláum kirtli (mögulega saman persóna og Dóttir álfakonungs, ekki skýrt í handriti)
UPPFÆRSLA 30. mars 2021
RÚV góðlátlega deildi með rannsakanda upptökum af tónlist úr Í álögum sem þau höfðu í sínum hirslum. Upptökur þessar eru frá árinu 1957 og eru af 22 lögum, en um 39 lög af ýmsum gerðum ættu að finnast í verkinu í heild. Ljóst er því að enn vantar nokkuð uppá til að gefa heildstæða tónræna mynd. Ef upptökur af þeim 17 lögum sem vantar uppá finnast ekki, þá hefur rannsakandi í hyggju að standa fyrir upptökum til að fylla í skarðið. Rannsakandi hefur tekið saman upplýsingar úr upprunalega handritinu sem varpa frekara ljósi á þessar upptökur frá 1957 og þá sérstaklega á dramatískt samhengi þeirra við verkið sem heild. Einnig er stefnt að því að birta brot úr öllum upptökum, ásamt samantekt úr handriti, á þessari síðu á einhverjum tímapunkti. Eftir bestu vitneskju rannsakanda eru þessar upptökur ekki, né formleg samantekt úr handriti, aðgengilegar almenningi neinsstaðar annarstaðar.