Enn er lockdown hér í Bretlandi sem er ekki mjög skemmtilegt, en ég er svo heppinn að geta drepið tímann með þremur spennandi verkefnum, með stuðningi frá eftirfarandi stofnunum:
1.
Fyrst ber að nefna raftónleikhús verkið „Þögnin - útvarpsópera“, sem ég er að skrifa ásamt Árna Kristjánssyni (Árni Kristjánsson) og verður frumflutt á Íslandi í haust 2021 (bæði á sviði og á netmiðlum) af stjörnu prýddu söngvaraliði: Bjarna Thor bassa, Elsu Waage contraalt, Guju Sandholt sópran og Eyjólfi Eyjólfssyni tenór. Verkefnið er styrkt af Sviðslistasjóð, Listamannalaunum Sviðslistamanna, Reykjavíkurborg og Menningarsjóð FÍH. Nánar hér: http://helgiingvarsson.com/thogninutvarpsopera
2.
Einnig frumflutt í haust (ef Covid leyfir) verður nýtt söngverk eftir mig fyrir fjóra söngvara, pantað af Óperudögum í Reykjavík og styrkt af Tónskáldasjóði RÚV. Vinnuheiti verksins er „Ljóð fyrir Loftslagið“ og verður byggt á nokkrum ljóðum með sama titli skrifuð af íslenskum grunnskólabörnum.
3.
Síðast en ekki síst er yfirstandandi rannsókn mín sem ber heitið „Sjálfstæðisyfirlýsing þjóðar í óperuverki: Í álögum eftir Sigurð Þórðarson og Dagfinn Sveinbjörnsson, fyrsta íslenska óperuverkið.“ Verkefnið hlaut nýverið stuðning frá Endurmenntunarsjóði FÍH. Rannsóknin felur í sér gagnaöflun og skrif á grein um þetta óþekkta en þó stórmerkilega og sögulega verk. Afraksturinn verður í formi greinar sem verður birt almenningi, sem og í formi námsefnis fyrir nemendur tónlistarskóla landsins. Nánar hér: http://helgiingvarsson.com/ialogumrannsokn
Kærar kveðjur til ykkar allra,
Helgi